Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, íþróttafræðingur

Fædd árið 1992 og uppalin á Hvolsvelli. Kláraði B. Sc. nám í íþrótta og heilsufræðum vorið 2013 og fór þá að starfa sem íþróttakennari í Grunnskólanum á Hellu. Meðfram námi og kennslu hefur hún verið að þjálfa fimleika í Hveragerði, Selfossi, Hellu og Hvolsvelli ásamt því að leggja stund á meistaranám í íþrótta- og heilsufræðum sem hún kláraði núna í febrúar 2018. Í meistaranáminu sérhæfði hún sig í þjálfun eldri aldurshópa og skrifaði lokaverkefni út frá 12 vikna þol- og styrktarþjálfun á einstaklingum 60 ára og eldri í Rangárþingi eystra og tókst vel til.
Aníta hefur mikinn áhuga á íþróttum og forvörnum á sviði hreyfingar og langar að miðla þeirri þekkingu sem hún hefur öðlast í gegnum námið áfram til samfélagsins. Hún telur að hægt sé að gera betur á þeim sviðum í Rangárþingi eystra þar sem huga þarf að öllum aldurshópum sveitarfélagsins, ungum og ekki síður þeim sem eldri eru. Hún telur að það skipti okkur öll máli að vera við góða heilsu og að geta tekist á við daglegar athafnir á eigin vegum sem og búið í sjálfstæðri búsetu sem lengst.