Stefnuskrá

Inngangur

L- listinn framboð óháðra í Rangárþingi eystra vill skapa betra samfélag fyrir alla, óháð aldri, uppruna, stöðu eða búsetu innan sveitarfélagsins, bæði í dag og í framtíðinni. Við leggjum áherslu á jafnrétti, fagleg vinnubrögð, fjölbreytt atvinnulíf, jafnt aðgengi að þjónustu auk þess að huga að umhverfi og uppbyggingu samfélagsins.

 

Umhverfismál – græn skref

L-listinn, framboð óháðra, vill að Rangárþing eystra verði grænt sveitarfélag. Ísland hefur tekið að sér ákveðnar alþjóðaskuldbindingar í loftslagsmálum þar sem allir þurfa að leggja hönd á plóg og viljum við leggja metnað í það að gera Rangárþing eystra leiðandi á sviði umhverfismála.

 

 • L-listinn, framboð óháðra, telur að Rangárþing eystra eigi að stefna að því að bæta lífsgæði íbúa með jákvæðum áhrifum á náttúruna. Hugsanlega má innleiða umhverfisstjórnunarkerfi eða umhverfisvottun ISO 37120 til að ná þeim markmiðum.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að hægt sé að nota væntanlegan fjárhagslegan ávinning af minnkun sorps til urðunar til að styrkja kaup heimila á moltutunnu til einkanota. Rangárþing eystra getur beitt sér fyrir slíkri lausn innan byggðasamlagsins. Samhliða því þarf að bæta upplýsingagjöf til heimila um minnkun á plastnotkun og stuðla þannig að plastpokalausu sveitarfélagi.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill bæta umhverfismál fyrirtækja í þéttbýli og dreifbýli. Sveitarfélagið sjálft og stofnanir þess eiga að vera í fararbroddi í umhverfismálum; stefna að minnkun matarsóunar í skólunum og á Kirkjuhvoli, stunda moltugerð, minnka útsendan pappír og hvetja starfsmenn til að minnka notkun á bílum, bæði á vinnutíma og á ferðum sínum til og frá vinnu.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill að sveitarfélagið bjóði upp á góða sorphirðu, hugsanlega með samvinnu við aðila sem kaupa brotajárn og bjóða íbúum dreifbýlisins oftar upp á gáma á gámasvæðunum þar, stærri gáma og/eða tíðari losun.
 • L-listinn, framboð óháðra, styður við uppgræðslu með tilliti til heftunar sandfoks og kolefnisjöfnunar. Einnig styðjum við eflingu skógræktar en hún mun skapa verðmæta auðlind til framtíðar.  
 • L-listinn, framboð óháðra, vill fylgja eftir ákvörðun sveitarstjórnar um að þjónusta við rotþrær heyri undir sveitarfélagið. Unnið er að kortlagningu rotþróa utan þéttbýlisins en með aðkomu sveitarfélagsins verður hægt að koma í veg fyrir óæskilega losun út í náttúruna okkar og hafa betra eftirlit með rotþróm í sveitafélaginu.

 

Mennta- og menningarmál

L-listinn, framboð óháðra, leggur áherslu á áframhaldandi metnaðarfullt skólastarf í sveitarfélaginu og að leitað verði úrbóta þar sem þörf er á. Uppeldi og menntun barna er mikilvæg fyrir alla þætti samfélagsins og grunnurinn að góðri framtíð er lagður í leik- og grunnskólum. Mikilvægt er að tryggja rétt hlutföll faglærðra leikskólakennara til að uppfylla lagaskilyrði um leikskóla.

 

 • L-listinn, framboð óháðra, telur mikilvægt að hlúð sé vel að yngstu íbúum sveitarfélagsins. Nauðsynlegt er að undirbúa byggingu nýs leikskóla og skoða möguleika á staðsetningu hans nálægt Hvolsskóla. Um er að ræða eina af brýnustu fjárfestingum sveitarfélagsins á komandi kjörtímabili.
 • L-listinn, framboð óháðra, leggur til að unnið verði deiliskipulag fyrir skóla- og íþróttasvæðið. Á því skipulagi er nauðsynlegt að gera ráð fyrir frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja í samráði við íþróttafélögin á svæðinu. Tryggja þarf að nægt rými verði til staðar svo hægt verði að stækka svæðið í framtíðinni ef þess gerist þörf. Þá þarf einnig að huga að öruggu aðgengi gangandi og akandi fólks.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur mikilvægt að tryggja áframhaldandi stuðning sveitarfélagsins við íþrótta- og tómstundastarf. Mikill fjöldi barna og unglinga í sveitarfélaginu stundar íþróttir af öllu tagi og hafa íþróttafélögin uppskorið vel undanfarin ár.  
 • L-listinn, framboð óháðra, vill efla starf félagsmiðstöðvarinnar enn frekar. Mikilvægt er að þar starfi áfram faglært fólk sem býður uppá þjónustu fyrir sem flest börn á aldrinum 10 – 20 ára og koma til móts við ólík áhugasvið þeirra.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill halda áfram að efla menningu í sveitarfélaginu. Ákveða þarf hvernig hægt sé að halda áfram rekstri Njálusýningar í Sögusetrinu í framtíðinni. Einnig þarf að ákveða hvernig standa skuli að sýningu á Njálureflinum sem fórnfúsir en áhugasamir sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í að sauma síðustu 5 ár. Ljóst er að um mikið menningarverðmæti er þar að ræða fyrir sveitarfélagið allt.
 • Tónleikar, sýningar og hátíðir er mikilvægt að styðja við og taka þátt í.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill beita sér fyrir bættum almenningssamgöngum, einkum í þágu barna okkar og annarra sem hafa ekki kost á því að ferðast um á eigin bíl.

 

Skipulags- og húsnæðismál

L-listinn, framboð óháðra, telur þörf á því að endurskoða gildandi aðalskipulag Rangárþings eystra, einkum með tilliti til eftirfarandi þátta.

 

 • L-listinn framboð óháðra vill beita sér fyrir því að skerpa á reglum um breytingu á landnotkun vegna stærri gististaða sem áformað er að byggja í dreifbýli. Með reglunum verði gerð krafa um kynningu á fyrirhuguðu verkefni og gefur það íbúum færi á að koma athugasemdum sínum á framfæri með lögformlegum hætti.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að ramma vanti um skipulag vindmylla og/eða vindmyllugarða, en nokkur áhugi er fyrir þeim í sveitarfélaginu. Móta þarf stefnu um vindmyllur í sveitarfélaginu og e.t.v. finna svæði þar sem heimilað yrði að reisa þær á. Tekið skal fram að litlar vindmyllur til heimabrúks eru undanskildar þessu. SASS hefur mótað stefnu um orkunýtingu á svæðinu sem sveitarfélagið ætti að fylgja.
 • Bæta þarf umferðaröryggi í sveitarfélaginu öllu. Á Hvolsvelli þarf einkum að huga að þörfum fótgangandi fólks og hjólreiðamanna. Bílaumferð innanbæjar ætti að beina svo fremi sé unnt um aðal- og tengivegi og síður um íbúagötur. Þrýsta þarf á Vegagerðina, gjarnan í samstarfi við nærliggjandi sveitarfélög, um vegabætur á þjóðvegi 1. Mikil þörf er á úrbótum þjóðvegarins til að tryggja öryggi allra þeirra sem eru út í umferðinni á hverjum degi.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill gera heildarúttekt á lagnamálum í sveitafélaginu; heitu og köldu vatni, fráveitu o.fl. Skoða þarf þessi mál áður en ákvarðanir eru teknar um frekari uppbyggingu í sveitum og á Hvolsvelli. Við viljum jafna aðgengi íbúa í sveitafélaginu að köldu vatni og koma í veg fyrir vandamál af völdum þrýstings. Einnig þarf að búa til áætlun um hvernig á að tryggja nægilegt heitt vatn til þéttbýlisins í framtíðinni.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill skapa meira leiguhúsnæði í sveitarfélaginu. Það er brýn þörf á búsetuvalkostum fyrir fólk sem er að íhuga að flytja inn á svæðið. Sérstaklega þarf að tryggja húsnæði fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og stofnana þess. Margar leiðir standa til boða og viljum við skoða hvaða leið gæti hentað sveitarfélaginu okkar best.

Atvinna og ferðaþjónusta

L-listinn, framboð óháðra, vill stuðla að fjölbreyttum atvinnumöguleikum í sveitarfélaginu. Til þess að hægt sé að laða fyrirtæki inn á svæðið þarf framboð á íbúðar- og skrifstofuhúsnæði að vera tryggt. Forgangsmál er að ljúka við lagningu ljósleiðara um allt sveitarfélagið en háhraða nettenging er forsenda þess að unnt sé að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og að unnt sé að stunda fjarvinnu. Ferðaþjónusta og landbúnaður eru stærstu atvinnugreinar sveitarfélagsins og er brýnt að styðja við þær greinar.

 

 • L-listinn, framboð óháðra, vill auka framboð á lóðum til atvinnustarfsemi og tryggja að nægt skrifstofuhúsnæði sé fyrir hendi.
 • L-listinn, framboð óháðra, leggur áherslu á að styðja og efla nýsköpun af hvaða tagi sem er og vill skapa hagstæða umgjörð fyrir slíka starfsemi.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að nauðsynlegt sé að huga fyrst að uppbyggingu innviða áður en gjaldtaka er hafin á vinsælum ferðamannastöðum í sveitarfélaginu.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill skerpa hlutverk markaðs- og kynningarfulltrúa, einnig í þágu annarra atvinnugreina en ferðaþjónustu.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill skepa hlutverk íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill styrkja stoðir ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu með því að hrinda í framkvæmd markaðsátaki í samvinnu við ferðaþjónustufyrirtæki í sveitarfélaginu og/eða í samstarfi við nágrannasveitarfélögin, Mýrdalshrepp og Rangárþing ytra.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að nauðsynlegt sé að auka sýnileika og efla starfsemi upplýsingamiðstöðvarinnar á Hvolsvelli með því að finna henni stað í miðbænum.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að setja þurfi skýrari reglur um skammtímaútleigu í þéttbýli. Ein leið til þess er að banna slíka leigu alfarið þegar nýjar götur eru skipulagðar.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að Katla Geopark eigi að verða sjálfbær eining.

 

Stjórnsýsla og fjármál

Rangárþing eystra er stór rekstareining og sveitarfélagið rekur nokkrar stofnanir og þjónustuveitur sem hafa ólík viðfangsefni. Slíkt fyrirtæki þarf öflugan framkvæmdastjóra. Það er í höndum sveitastjórnar að taka pólitískar ákvarðanir en sveitarstjórans að sjá um daglegan rekstur sveitarfélagsins.

 

 • L-listinn, framboð óháðra, styður ráðningu sveitarstjóra. Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins sem sér um daglegan rekstur þess, en pólitískar ákvarðanir eiga að vera í höndum sveitarstjórnar.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að það eigi að endurskoða rekstur sveitarfélagsins með hagræðingu og aukinni fagþekkingu í huga. Flutningur í nýja skrifstofuhúsnæðið við Austurveg 4 mun hafa í för með sér ákveðin samlegðaráhrif. Þetta er góður tími til að fara yfir starfslýsingar og/eða verksvið alls starfsfólks.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur ráðlegt að hjá sveitarfélaginu starfi sérfræðingar sem bera ábyrgð á ákveðnum málaflokkum/sviðum hjá öllum stofnum sveitarfélagsins, t.d. mannauðsmálum, innkaupum, umhverfismálum og fjármálum. Meðal annars telur L-listinn, framboð óháðra, að efla eigi starf markaðs- og kynningarfulltrúa og víkka starfssvið hans, einkum í þágu annarra atvinnugreina en ferðaþjónustu.
 • L-listinn, framboð óháðra, er talsmaður þess að Rangárþing eystra sækist eftir jafnlaunavottun, eins og lög gera ráð fyrir,  og innleiði jafnlaunakerfi.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill efla íbúalýðræði. Það má nota nýútkomna handbók SÍS um íbúalýðræði og fá aðstoð utanaðkomandi aðila til að setja upp kerfi í þeim tilgangi. L-listinn, framboð óháðra, er þeirrar skoðunar að það mætti betrumbæta íbúavefinn á sama tíma og nýja heimasíða sveitarfélagsins verður sett upp.
 • L-listinn, framboð óháðra vill beita sér sérstaklega fyrir vandaðri stjórnsýslu. Í því felast  skýr valdamörk og ábyrgðarsvið, fagleg vinnubrögð, málefnanleg ákvarðanataka án tillits til persónulegra hagsmuna og gegnsæi í ákvarðanatöku.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill skoða frekari samvinnu við nágrannasveitarfélögin og taka til fyrirmyndar það sem þau hafa verið að gera, svo sem við lagningu ljósleiðara, í gatnagerðarmálum, orkumálum, veitumálum og ferðaþjónustumálum.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur mikilvægt að fjárhagsáætlun sé metnaðarfull og vel útfærð. Nauðsynlegt er að gera viðbætur við fjárhagsáætlun um leið og ný og ófyrirséð verkefni bætast við. Sveitarstjórnin á síðan að vinna eftir fjárhagsáætlun og er hægt að nota ýmis verkfæri viðskiptafræðinga í þeim tilgangi, t.d. uppgjör fyrir hluta úr árinu.

 

Velferðarmál

L-listinn, framboð óháðra, telur mikilvægt að allir geti búið í sveitarfélaginu okkar óháð aldri, kyni, uppruna eða starfsgetu. Við viljum styðja við þá sem þurfa á stuðningi að halda. Þetta á jafnt við fatlaða, aldraða, sjúklinga og fólk sem skortir peninga og félagslegt net. Velferðarmál snúast hins vegar ekki bara um að hlúa að þeim sem minna mega sín, heldur líka um að fyrirbyggja slíkar aðstæður þar sem það er hægt.

 

 • L-listinn, framboð óháðra, stefnir að því að gera öllum kleift að búa í sveitarfélaginu sínu. Til þess að það náist þarf að fjölga búsetuúrræðum fyrir fatlaða einstaklinga.
 • L-listinn, framboð óháðra, fagnar nýbyggingu við Kirkjuhvol. Næsta skref er að fá fjármagn frá ríkinu til að geta fyllt upp í nýju hjúkrunarrýmin. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera íbúum sveitarfélagsins kleift að eyða sínum efri árum hér.
 • L-listinn, framboð óháðra, telur að þó að heilsan sé einkamál hvers og eins, þá geti sveitarfélagið hvatt íbúa sína og sérstaklega sitt eigið starfsfólk til heilsusamlegs lífernis. Góð aðstaða til íþróttaiðkunar er þar mikilvæg, en aðstoð fagmanna á staðnum, kennsla og upplýsingagjöf gera gæfumuninn. Einnig geta hvetjandi verkefni og styrkur til starfsmanna þar skipt sköpum. Hreyfing og heilsusamlegur lífstíll er vani sem hægt er að tileinka sér.
 • L-listinn, framboð óháðra, vill aðstoða fólk sem fetar sín fyrstu spor í samfélagi okkar, sama hvort um Íslendinga eða útlendinga er að ræða. Við viljum klára vinnu við móttökuáætlun og setja aukinn kraft í samvinnu við góðgerðarsamtök til að hjálpa fólki að aðlagast. Einnig er mikilvægt að hvetja alla nýbúa til þess að sækja námskeið í íslenskukennslu.